Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi voru kallaðir að fjölbýlishúsi við Álftarima á Selfossi síðdegis í dag þar sem eldur hafði komið upp í geymslu í kjallara hússins.
Að sögn Jóns Þórs Jóhannssonar, varðstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu, gekk slökkvistarfið vel. „Eldurinn var nánast kafnaður þegar reykkafararnir fóru inn en hann hefur verið búinn að krauma góða stund, því það var mikill hiti og allt sviðnað inni í geymslunni.“
Ekki þurfti að rýma húsið og engum varð meint af en töluvert tjón varð á innanstokksmunum.
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar eldsupptökin.