Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi, Laugarvatni og í Reykholti voru kölluð út laust fyrir klukkan 6 í morgun þegar eldur kom upp í gróðurhúsi á Böðmóðsstöðum í Laugardal.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi logaði eldur í tveimur gróðurhúsalömpum.
Greiðlega gekk að slökkva eldinn en að því loknu þurfti að reykræsta gróðurhúsið.
Í húsinu var tómataræktun og er líklegt að plöntur hafi skemmst því mikill reykur var í gróðurhúsinu.