Skálholtskirkja var reykræst og glussi hreinsaður af gólfi í síðustu viku eftir að eldur kom upp í skæralyftu inni í kirkjunni.
Verið var að skipta um ljósaperur í lofti kirkjunnar og var skæralyftan notuð til þess að auðvelda mönnum verkið, uppi í átta metra hæð.
Þegar verið var að slaka lyftunni niður sprakk glussaslanga og efni dreifðist yfir rafbúnað lyftunnar sem varð til þess að eldur kviknaði.
Heimamönnum tókst að slökkva eldinn með slökkvitæki en hins vegar beið slökkviliðsmannanna talsvert verk að reykræsta kirkjuna og hreinsa glussann af gólfinu.