Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði var kallað út á ellefta tímanum á laugardagsmorgun þegar tilkynnt var um eld í tveggja hæða timburhúsi í smíðum við Lindarbrún í Hveragerði.
„Það var verið að bræða pappa á þakið á húsinu þegar það kom upp eldur. Menn á vettvangi reyndu að slökkva og það varð ekki mikið bál en þetta var allsherjarútkall á stöðina okkar í Hveragerði,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Slökkviliðsmenn frá Hveragerðisstöðinni mættu á vettvang og komu í veg fyrir frekara tjón á húsinu.