Brunavarnir Árnessýslu fengu boð um eld í ruslagámi fyrir aftan nytjamarkaðinn við Eyrarveg á Selfossi kl. 20:32 í kvöld.
Þegar slökkviliðið kom á staðinn hafði eldurinn læst sig í húsinu. Um er að ræða gamla timburbyggingu aftan við húsið sem byggt er úr holsteini. Slökkviliðsmenn höfðu snör handtök og slökktu eldinn áður en illa fór.
Talsvert tjón varð á húsinu en rífa þurfti klæðningu af útvegg og þaki til að leita að glóðum sem leynst gætu í veggnum en mikill hiti var í veggnum.
Lögreglan á Selfossi rannsakar upptök eldsins.