Brunavarnir Árnessýslu fengu í nótt tilkynningu um eld innandyra á gistiheimilinu Kvöldstjörnunni á Stokkseyri.
Þegar vakthafandi varðstjóra BÁ og lögreglu bar að garði slökktu þeir eldinn, sem reyndist vera í rafmagnstöflu, með duftslökkvitæki.
Stuttu síðar kom dælubíll með reykköfurum á vettvang og fóru reykkafarar inn og slökktu í þeim glæðum sem eftir voru. Reykræsta þurfti húsnæðið að slökkvistarfi loknu.
Ekki varð teljandi tjón á fasteigninni vegna eldsins og ekki er vitað til þess að gestum gistiheimilisins hafi orðið meint af vegna atviksins.