Laust fyrir klukkan hálf tólf í kvöld var Neyðarlínunni tilkynnt um eld í fjölbýlishúsi við Álftarima á Selfossi. Þar kviknaði í stórri ruslatunnu í geymslu á neðstu hæð hússins.
Talsverður eldur var í tunnunni þegar slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi komu á vettvang og mikinn reyk lagði af. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins.
Slökkviliðsmenn skoðuðu sorprennu í stigagangi hússins með hitamyndavél og leituðu af sér allan grun um að eldur leyndist í henni. Þá þurfti að reykræsta eina íbúð á efstu hæð hússins þar sem húsráðendur höfðu skilið útihurðina eftir opna þegar þeir hlupu út og reykur barst inn í íbúðina.
Töluverður viðbúnaður var hjá viðbragðsaðilum en ekki er talið að neinum hafi orðið meint af reyknum.
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar upptök eldsins.