Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði voru kallaðir út rétt fyrir miðnætti síðastliðinn föstudag vegna elds í Núpagryfjum í Ölfusi.
Mikinn svartan reyk lagði frá gryfjunum og varð það til þess að slökkviliðið var kallað út þar sem ekki var ljóst hvað væri að brenna.
Í ljós kom að þarna höfðu einhverjir lagt eld að vörubrettum og dekkjum. Þeir hinir sömu voru horfnir á braut þegar slökkvilið mætti á staðinn. Eldurinn var slökktur til þess að ekki kæmi til fleiri innhringinga til Neyðarlínu vegna málsins.
Í frétt frá BÁ segir að óleyfisbrennur geti valdið miklu álagi á það viðbragðskerfi sem við höfum. Fjölmörg símtöl berast yfirleitt til Neyðarlínunnar vegna þeirra og viðbragðsaðilar eru þá oft og iðulega sendir út sem getur valdið töf á viðbragði ef þörf er á þeim í raunverulega neyð.