Eldur kom upp í skorsteini sem liggur frá arni á veitingastaðnum Riverside á Hótel Selfossi á tíunda tímanum í kvöld. Starfsmenn hótelsins náðu að slökkva eldinn.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn rétt fyrir klukkan tíu í kvöld og var viðbragð Brunavarna Árnessýslu mikið. Ekki kom þó til þess að rýma þurfti hótelið, þar sem það kom tiltölulega fljótt í ljós að eldurinn væri bundinn við skorsteininn. Hvorki gestum eða starfsfólki á veitingastaðnum varð meint af.
Haukur Grønli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, segir að í eldstæðum sem þessum geti safnast fyrir sót í rörinu og þegar það hitnar þá geti kviknað í sótinu sjálfu.
„Sótið getur orðið að eins konar tjöru sem er mjög eldfim þannig að það getur orðið mjög heitur og mikill bruni. Það er mikilvægt að hreinsa svona skorsteina reglulega,“ segir Haukur.
„Starfsmenn hótelsins skutu með duftslökkvitæki inn í rörið og hitinn dregur duftið með sér upp í gegnum rörið þannig að það hefur vonandi slokknað alveg. Við erum núna að fullvissa okkur um að hitinn í rörinu sé ekki að aukast, hann sé jafn eða á leiðinni niður og ekki búinn að dreifa úr sér,“ bætti Haukur við en skorsteinninn var myndaður af slökkviliðinu með hitamyndavél.
Mikill mannskapur var á vettvangi frá Brunavörnum Árnessýslu, auk tækjabíls voru tankbíll og körfubíll kallaðir á vettvang. „Viðbragðið er mikið, þetta er stórt hótel og við þurfum að fara varlega,“ sagði Haukur að lokum en slökkviliðsmenn hrósuðu starfsfólki hótelsins mikið fyrir hárrétt viðbrögð.