Neyðarlínan fékk tilkynningu um eld í geymsluskúr við Eyrarbraut á Stokkseyri laust fyrir klukkan átta í kvöld.
Þegar slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Stokkseyri og Selfossi komu á vettvang var skúrinn alelda.
Slökkviliðið náði tökum á eldinum á skammri stund. Lögregla lokaði hluta Eyrarbrautar á meðan á slökkvistarfi stóð en mikill reykur barst yfir þorpið frá vettvangi brunans.
Eldsupptök eru ókunn.