Eldur kom upp í spónaverksmiðju Fengs í Hveragerði um kl. 11 í morgun. Snarræði starfsmanna kom í veg fyrir stórtjón.
Mikill eldsmatur var í húsinu en eldurinn kom upp í spónasílói. Starfsmenn Fengs náðu að slökkva eldinn áður en slökkviliðið í Hveragerði kom á staðinn.
Slökkviliðsmenn slökktu í glæðum og var það töluverð vinna þar sem erfitt er að eiga við glóð sem getur leynst í sagi.
Húsið var reykræst og mun starfsemi líklega geta hafist aftur í verksmiðjunni síðar í dag.
Þetta er í annað skipti sem eldur kemur upp í verksmiðjunni en eldur kom þar upp í mars í fyrra og varð þá talsvert tjón.