Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi og Laugarvatni réð niðurlögum elds í sumarhúsi við Tjarnarlaut í Grafningi síðdegis í dag. Tjarnarlaut er í landi Nesja við Þingvallavatn.
Boð um eldinn bárust Neyðarlínunni laust eftir klukkan hálf fimm í dag. Fólk var í húsinu en allir náðu að koma sér út og varð engum meint af.
Talið er líklegt að eldurinn hafi kviknað út frá kamínu en brunatjón varð lítið á húsinu. Eldur logaði inni í vegg og rífa þurfti klæðningu af veggjum en mestu skemmdirnar urðu vegna reyks, en mikill reykur var í húsinu þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang.
Brunavarnir Árnessýslu munu vakta húsið fram á kvöld.