Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi voru kallaðir að íbúðarhúsi í Flóahreppi á sjöunda tímanum í kvöld þar sem eldur hafði kviknað utandyra.
„Það virðist hafa kviknað eldur þarna í blómakeri sem var áfast húsinu og eldurinn læsti sig síðan í sólpall. Þetta var ekki mikið, fólkið í húsinu hafði reynt að slökkva en ekki tekist það og því hringdu þau í Neyðarlínuna,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
„Það þurfti að rífa aðeins af pallinum til að komast að glæðum, þannig að þetta var smá vinna en ekki stórvægilegt og verkið gekk vel,“ bætti Pétur við.
Fólkið í húsinu var í sóttkví og tilkynnti Neyðarlínunni það í símtalinu.
„Við þurftum ekki að bregðast sérstaklega við því. Fólkið gerði rétt í því að láta Neyðarlínuna vita að þau væru í sóttkví og síðan biðu þau inni í bíl á meðan við kláruðum okkar vinnu,“ sagði Pétur að lokum.