Eldur kviknaði í djúpsteikingarpotti í veitingastaðnum Skálanum í Þorlákshöfn eftir hádegi í dag. Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Þorlákshöfn var kallað á vettvang kl. 13:37.
„Starfsfólk í Skálanum brást hárrétt við og slökkviliðsmenn voru fljótir á vettvang,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.
Að sögn Lárusar var tjónið ekki mikið og engum varð meint af, hvorki af eld eða reyk. Slökkviliðsmenn reykræstu Skálann, sem verður lokaður það sem eftir er dags á meðan unnið er að þrifum.