Eldur kom upp á veitingastaðnum Krisp við Eyraveg á Selfossi á tólfta tímanum í morgun. Að sögn Lárusar Kristins Guðmundssonar, varaslökkviliðsstjóra, kom eldurinn upp í eldhúsinu og fór upp í reykháf.
„Við erum að vinna að því núna að rífa frá háfnum og slökkvistarfinu er að ljúka. Það gerist eitthvað þarna í kringum steikingarbúnaðinn í eldhúsinu og það kviknar í háfnum en eldurinn var bara bundinn við eldhúsið og háfinn,“ sagði Lárus í samtali við sunnlenska.is en slökkviliðsmenn voru fljótir á vettvang, ásamt sjúkraflutningum og lögreglu.
Starfsfólk veitingastaðarins slapp út ómeitt og engum varð meint af reyknum eftir því sem Lárus best vissi.