Hið árlega Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna var opnað í Grunnskólanum í Hveragerði í hádeginu í dag í samvinnu við Brunavarnir Árnessýslu.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, tók þátt í því með starfsmönnum Brunavarna Árnessýslu að fræða börnin í 3. bekk um eldvarnir.
Að því búnu var haldin rýmingaræfing í skólanum og heppnaðist rýmingin mjög vel. Skólinn var rýmdur á innan við þremur mínútum og búið var að gera grein fyrir öllum nemendum og starfsfólki á söfnunarsvæði innan sex mínútna. Þá fékk starfsfólk og gestir einnig að spreyta sig á að slökkva eld.
Slökkviliðsmenn um allt land taka þátt í Eldvarnaátaki Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) í aðdraganda hátíðanna. Þeir hvetja almenning til að efla eldvarnir á heimilum en að meðaltali látast ein til tvær manneskjur í eldsvoðum ár hvert og bætt brunatjón nemur árlega yfir tveimur milljörðum króna að meðaltali. Þá er ótalið rask og óþægindi, óbætt brunatjón og margvíslegt tjón sem ekki er unnt að bæta með peningum. Langalgengasta orsök elds í banaslysum er opinn eldur, það er kerti og reykingar.
Slökkviálfarnir Logi og Glóð aðstoða við fræðsluna og fá öll börn í 3. bekk söguna af hetjulegri baráttu þeirra systkina við Brennu-Varg að gjöf. Í sögunni er eldvarnagetraun og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem senda LSS réttar lausnir. Krakkarnir fá einnig handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimila með sér heim.
Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.