Elfa Dögg Þórðardóttir, bæjarfulltrúi D-listans í Árborg og fyrrverandi formaður SASS, ætlar að segja skilið við vettvang stjórnmálanna og segja sig úr Sjálfstæðisflokknum.
„Undanfarin ár hef ég unnið af heilum hug í þágu sveitarfélagsins Árborgar og fyrir sveitarfélögin á Suðurlandi sem formaður Samtaka Sunnlenskra sveitarfélaga. Það hefur verið ánægjulegt að koma á fót ýmsum verkefnum í Árborg sem og á Suðurlandi enda eru tækifærin óteljandi og ekki síður skemmtileg. Fátt er jafn gefandi og að koma að verkefnum sem veita íbúum gleði og fylla þá stolti yfir sínu bæjarfélagi og með það að markmiði hef ég reynt að vinna þau verk sem ég hef komið að.
Það er hins vegar ljóst að ekki hefur gróið um heilt eftir þann alvarlega trúnaðarbrest sem varð á vordögum varðandi svokallað skólaskrifstofumál og er það mat mitt á stöðu mála að best sé að ég fylgi sannfæringu minni og segi skilið við vettvang stjórnmálanna að sinni. Mun ég í framhaldi af þessari ákvörðun segja mig úr Sjálfstæðisflokknum,“ segir Elfa Dögg í yfirlýsingu sem hún sendi fjölmiðlum í dag.
„Ég óska bæjarstjórn Árborgar velfarnaðar í störfum sínum og alls hins besta til handa íbúum sveitarfélagsins sem og Suðurlands alls,“ segir Elfa að lokum.