Elín Birna verðlaunuð fyrir framlag til umhverfismála

Elín Birna ásamt þeim Daníel Leó, formanni umhverfisnefndar og Braga Bjarnasyni, bæjarstjóra. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Umhverfisnefnd Árborgar veitti þrjár viðurkenningar á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi um síðustu helgi fyrir snyrtimennsku og framlag til umhverfismála í sveitarfélaginu.

Grundartjörn á Selfossi var valin fallegasta gatan en þar er götumyndin gróin og vel hirt og við götuna eru fallegir og snyrtilegir garðar sem saman mynda fallega heild. Hefð er fyrir því að elsti og yngsti íbúi götunnar afhjúpi skilti í götunni af þessu tilefni. Það gerðu þær Kristrún B. Hálfdánardóttir, 83 ára í Grundartjörn 7 og Ísold Esther Sindradóttur, 14 mánaða í Grundartjörn 12. Foreldar hennar eru Jóhanna Rut Arndísardóttir og Sindri Ragnarsson. Verðlaunin voru afhent síðdegis á föstudag að viðstöddum flestum íbúum götunnar.

Grundartjörn er fallegasta gatan í Árborg 2024. Ljósmynd/Aðsend
Kristrún B. Hálfdánardóttir 83 ára og Ísold Esther Sindradóttir 14 mánaða afhjúpuðu skiltið í Grundartjörn og nutu við það aðstoðar Sindra, föður Ísoldar. Ljósmynd/Bragi Bjarnason

Á sléttusöngnum á laugardagskvöld fékk Elín Birna Bjarnfinnsdóttir verðlaun fyrir framlag til umhverfismála í sveitarfélaginu. Elín Birna er ötull plokkari en hún plokkaði meðal annars í vor meðfram Eyrarbakkavegi frá Óseyrarbrú upp á Selfoss. Auk þess hefur hún snyrt beð, klippt gróður, slegið gras og lagað til í umhverfinu víða á Eyrarbakka. Þetta hefur hún gert uppá sitt einsdæmi og að eigin frumkvæði. Óhætt er að segja að þetta framtak Elínar Birnu hafi vakið mikla athygli og sýni ríka ást hennar til samfélagsins sem hún býr í.

Heiðar og Margrét í Laxalæk 36 ásamt Daníel Leó og Braga. Ljósmynd/Aðsend

Á sunnudagsmorgun bönkuðu svo Daníel Leó Ólason, formaður umhverfisnefndar Árborgar og Bragi Bjarnason, bæjarstjóri, uppá á Laxalæk 36 á Selfossi en þar er fallegasti garðurinn í sveitarfélaginu þetta árið. Þar búa Heiðar Helguson og Margrét Ósk Brynjólfsdóttir en garðurinn þeirra er vel hannaður og gróinn, í líflegum og skemmtilegum sælureit.

Hjúkrunarheimilið Móberg við Árveg á Selfossi fær síðan viðurkenningu sem fallegasta stofnunin í sveitarfélaginu og verða þau verðlaun afhent síðar í mánuðinum.

Hjúkrunarheimilið Móberg á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það er umhverfisnefnd Árborgar sem veitir þessari viðurkenningar og áður en þær eru afhentar auglýsir nefndin eftir ábendingum varðandi tilnefndingar frá íbúum. Fjöldi tilnefninga barst í ár, flestar um fallegasta garðinn og gáfu nefndarmenn sér góðan tíma í að skoða og kynna sér garðana áður en úrslitin voru gerð kunn.

Fyrri greinRaddir úr Rangárþingi boða til rokkveislu
Næsta grein130 keppendur frá HSK á Unglingalandsmóti UMFÍ