Elín Esther Magnúsdóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni. Elín Esther hóf störf þar í gær.
Elín Esther þekkir Úlfljótsvatn mjög vel og hefur lagt sín lóð á vogaskálarnar sem sjálfboðaliði og sem starfsmaður síðastliðna áratugi við góðan orðstír. Hún kemur inn í hópinn með mikla staðarþekkingu og mikinn metnað fyrir því að lyfta staðnum enn betur upp og vinna náið með starfsfólki staðarins, Bandalagi íslenskra skáta, sjálfboðaliðum og skátum á Íslandi.
„Ég er þakklát fyrir traustið, og tækifærið til að koma aftur í Undralandið. Úlfljótsvatn hefur verið mitt annað heimili í skátastarfi síðan ég byrjaði í Fossbúum í gamla daga, og mér finnst hvergi betra að vera,“ segir Elín Esther á heimasíðu skátanna.
„Á Úlfljótsvatni í dag starfar mjög öflugt teymi og ég hlakka til að læra af þeim. Síðustu ár hefur verið lögð mikil vinna í að skipuleggja starfið og marka stefnu sem ég hlakka til að vinna að með. Ég brenn fyrir þjálfunar- og öryggismálum og reikna með að þau verði í forgrunni hjá mér.“
Fyrir utan að hafa verið sumarbúðastarfsmaður og dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni hefur Elín Esther reynslu úr fjölmiðlaheiminum, frístundastarfi með börnum og ungu fólki, björgunarsveitum, ferðaþjónustu og svo hefur hún starfað sem ökukennari síðustu ár.