T-listinn í Flóahreppi fékk tvo menn kjörna í sveitarstjórnarkosningunum en Elín Höskuldsdóttir, sem var í 2. sæti listans, náði þó ekki kjöri þar sem hún færðist niður vegna útstrikana.
Samkvæmt upplýsingum sunnlenska.is er þetta í fyrsta skipti á þessari öld sem útstrikanir hafa áhrif á skipan kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi.
T-listinn hlaut 129 atkvæði og strikuðu 38 kjósenda listans yfir nafn Elínar, eða 29,4%. Elín færist því niður um sæti og Harpa Magnúsdóttir, sem var í 3. sæti T-listans, færist upp í 2. sætið og tekur sæti í sveitarstjórn.
Í Flóahreppi eru 500 manns á kjörskrá og kusu 401, þannig að kjörsókn var 80,2%.
I-listinn, Framfaralistinn, sigraði í kosningunum, hlaut 255 atkvæði og þrjá menn kjörna. Sveitarstjóraefni I-listans er Hulda Kristjánsdóttir. Kjósendur I-listans strikuðu ellefu sinnum yfir nafn Huldu og sjö sinnum yfir nafn Árna Eiríkssonar oddvita, sem eru 3-4% kjósenda listans.
Fréttin hefur verið uppfærð: Upphaflega sögðum við að þetta væri í fyrsta skipti sem útstrikanir hafa áhrif á skipan kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnarkosningum. Viðar Á. Olsen benti okkur réttilega á það að í hreppnefndarkosningum árið 1958 stilltu Framsóknarmenn í Patrekshreppi upp ungum skipstjóra í 1. sæti á lista sínum. Síðan skipulögðu þeir útstrikanir sem höfðu þau áhrif að skipstjórinn komst aldrei í hreppsnefnd, þrátt fyrir að listinn fengi a.m.k. tvo menn kjörna.