Formannsskipti urðu í Flugbjörgunarsveitinni Hellu á dögunum þegar aðalfundur sveitarinnar var haldinn.
Elín Hjartardóttir er nýr formaður sveitarinnar og tekur hún við embættinu af Erlu Sigríði Sigurðardóttur, sem gaf ekki kost á sér áfram.
Rebekka Stefánsdóttir og Halldór Árnason voru kosin í stjórn til tveggja ára en auk þeirra eru í stjórn þau Smári Sigurgrímsson og Margrét Heiða Stefánsdóttir.
Rekstur sveitarinnar hefur verið í góðu jafnvægi síðustu mánuði þrátt fyrir að félagið hafi misst eina af sínum stærstu fjáröflunum á þessu ári en Hellutorfæran fer ekki fram í ár vegna Kórónuveirufaraldursins.
Árið 2019 fór Flugbjörgunarsveitin Hellu í 59 útköll, þar af fjórtán útköll á hæsta forgangi og eru þetta talsvert fleiri útköll en árið 2018. Flest voru útköllin í júlímánuði, fjórtán talsins. Alls tóku 48 manns þátt í útköllum sveitarinnar árið 2019, þar af voru þrettán sem mættu í fleiri en tíu útköll.