Selfyssingurinn Elín Gränz hefur verið ráðin mannauðsstjóri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu en hún var valin úr stórum hópi umsækjenda.
„Það er virkilega spennandi að fá tækifæri til að byggja upp og móta mannauðsumhverfi Hörpu sem er eitt af menningardjásnum þjóðarinnar með því hæfileikaríka fólki sem þar er við störf,“ segir Elín um ráðninguna.
Elín lauk grunnnámi í alþjóðamarkaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2001, MBA námi frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn 2006 og var í meistaranámi í mannauðsstjórnun í Háskóla Íslands 2009 – 2011. Elín útskrifaðist jafnframt sem stjórnendamarkþjálfi frá Opna háskólanum og Coach University vorið 2018.
Síðustu 12 ár hefur Elín starfað hjá Opnum kerfum í margvíslegum hlutverkum eins. Í janúar á þessu ári tók hún við starfi framkvæmdastjóra vöru- og hugbúnaðarsviðs þar, samhliða starfi mannauðsstjóra.
Elín hefur jafnframt verið virk í félagsmálum og er meðal annars einn stofnenda Vertonet – hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatækni og verið í stjórn Mannauðs – félags mannauðsfólks á Íslandi, viðskiptanefnd FKA og Leiðtogaauði.