Ellefu kærðir fyrir símanotkun við akstur

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ellefu ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku.

Einn þessara ökumanna var með tvö börn laus í bílnum og fékk sekt fyrir þau brot einnig.   Auk þessa var einn kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti.

Tveir ökumenn sem lögregla hafði afskipti af reyndust próflausir. Skráningarnúmer bifreiðar annars þeirra voru fjarlægð þar sem viðkomandi ökutæki var langt fram yfir frest til að verða fært til aðalskoðunar. Þá voru skráningarnúmer tveggja bíla fjarlægð þar sem þeir reyndust ótryggðir í umferðinni.

Þrír ökumenn voru kærðir vegna brota á reglum um að nota ökumannskort/skífu réttilega og fá þeir sína sekt fyrir brotið auk þess sem atvinnurekandi þeirra er einnig sektaður.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að ellefu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en ekki urðu alvarleg meiðsli í neinu þeirra.

Fyrri greinBrunaði framhjá löggunni en komst ekki langt
Næsta greinCunningham með 30 stig og 20 fráköst í sigri á Sindra