Ellý Tómasdóttir á Selfossi gefur kost á sér í 2. sætið í lokuðu prófkjöri Framsóknar í Árborg.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Ellý sendi frá sér í morgun. Ellý er með Bakkalársgráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem forstöðumaður í frístundaklúbbi á Selfossi.
„Sumarið 2014 fluttum við fjölskyldan á Selfoss og erum stolt af því að tilheyra því samfélagi sem hér þrífst. Undanfarin ár hefur Sveitarfélagið Árborg vaxið gríðarlega og mikil fjölgun íbúa og uppbygging hefur átt sér stað. Við höfum notið þeirra forréttinda að fá að fylgjast með þeirri þróun og taka þátt í henni. Þeirri þróun fylgja þó óhjákvæmilega miklar áskoranir svo hægt verði að tryggja öllum íbúum góð búsetuskilyrði, þjónustu og atvinnu í samfélaginu okkar,“ segir Ellý.
„Við þurfum að halda áfram á þeirri framsæknu vegferð sem hefur fylgt uppbyggingunni á undanförnu kjörtímabili, leggja aukna áherslu á uppbyggingu atvinnutækifæra, viðhald innviða og farsæl tækifæri fyrir einstaklinga til að blómstra hér óháð aldri, stöðu eða menntun og hlúa að barnafjölskyldum. Þannig sköpum við samfélag þar sem öllum líður vel í sínu nær umhverfi.“
Ellý segir framtíðina í Árborg bjarta og spennandi og hún vill taka þátt í að móta hana ásamt öflugu fólki sem brennur fyrir samfélaginu.
„Sveitarfélagið hefur að geyma fjölbreytt tækifæri í krefjandi verkefnum næstkomandi ára. Framtíðin felst í því að fjárfesta í fólki og mig langar að leggja mitt að mörkum í þeirri fjárfestingu og byggja hér upp öruggt samfélag þar sem áhersla er á að bæta statt og stöðugt lífsgæði íbúa,“ segir Ellý.