Elsti Sunnlendingurinn 102 ára í dag

Myndin af Maríu birtist á vef Rangárþings eystra þegar hún varð hundrað ára.

María Jónsdóttir á Hvolsvelli er 102 ára í dag, nákvæmlega tólf árum eldri en frú Vigdís Finnbogadóttir, sem er níræð í dag.

María hefur kveðið stemmur fyrir þjóðhöfðingja, enda barnabarnabarn Bólu-Hjálmars. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu á nýársdag 2009 fyrir framlag til varðveislu þjóðlegrar kvæðamenningar. María er fædd í Austur-Húnavatnssýslu en var húsfreyja á Kirkjulæk í Fljótshlíð frá 1947 til 1984.

Frá þessu er greint á Facebooksíðunni Langlífi.

Nú eru fjórir Sunnlendingar hundrað ára eða eldri og er María elst þeirra. Hin eru Guðbjörg Eiríksdóttir í Steinsholti sem verður 101 árs næstkomandi miðvikudag, Guðrún Valdimarsdóttir á Eyrarbakka sem varð 100 ára þann 12. mars síðastliðinn og Sigríður Einarsdóttir á Selfossi sem varð 100 ára síðastliðinn föstudag.

Einn Árnesingur og einn Rangæingur geta bæst í þennan hóp á árinu og þrír íbúar á Suðurlandi á næsta ári.

Fyrri greinSigríður ráðin lögfræðingur hjá Árborg
Næsta greinLárus tekur við Þórsliðinu