Anna Margrét Franklínsdóttir á Selfossi er 104 ára í dag, fædd 15. júní 1910 að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu. Hún er elsti íbúi Suðurlands og í 6. sæti yfir elstu núlifandi Íslendingana.
Foreldrar hennar voru Franklín Þórðarson og Andrea Jónsdóttir, sem varð 97 ára. Systkinin á Litla-Fjarðarhorni voru þrettán talsins og er meðalaldur þeirra 91 ár sem er met þegar svo mörg systkini eiga í hlut, að því er segir á Facebooksíðunni Langlífi. Fjögur af systkinunun eru enn á lífi og er meðalaldur þeirra 96 ár.
Auk Önnu eru það Nanna Franklínsdóttir, elsti Siglfirðingurinn, 98 ára, Margrét Franklínsdóttir á Siglufirði, 92 ára, og Guðborg Franklínsdóttir á Siglufirði, 90 ára.
Af þeim systkinum sem eru látin náði eitt 98 ára aldri, eitt varð 94 ára, eitt 93 ára, eitt 92 ára og eitt 90 ára. Þannig hafa níu af þrettán systkinum frá Litla-Fjarðarhorni náð níutíu ára aldri. Það er greinilega langlífi í ættinni. Ein frænkan varð 107 ára og bróðir hennar 100 ára.
Árið sem Anna Margrét fæddist voru Íslendingar 85.183 talsins. Anna Margrét er fjórum árum eldri en Eimskipafélag Íslands. Hún lifði báðar heimstyrjaldirnar og var átta ára þegar Ísland fékk fullveldi. Anna Margrét lifði frostaveturinn mikla og spænsku veikina. Hún var 22 ára þegar fyrsta sýklalyfið kom til Íslands og hún vann þar til hún var 92 ára gömul.