Embætti íþrótta- og æskulýðsfulltrúa í Rangárþingi ytra hefur verið lagt niður. Jóni Pétri Róbertssyni var gert að taka pokann sinn þann 1. júlí sl.
Þetta var samþykkt á síðasta fundi hreppsnefndar en þar kom fram að kostnaður vegna embættisins hafi verið kominn fram úr heimildum fjárhagsáætlunar 2010.
Steindór Tómasson, meirihlutafulltrúi Á-listans, lét hafa eftir sér á fundinum að allt skipulag í kringum stöðu íþrótta- og æskulýðsfulltrúa hafi borið vott um að stefna sveitarfélagsins hingað til hafi ekki verið skýr varðandi málaflokkinn og launakostnaður hafi t.a.m. farið langt framúr hugmyndum sveitarstjórnar þegar lagt var upp með starfið í byrjun.
Íþrótta- og tómstundanefnd sveitarfélagsins er falið að gera tillögur varðandi framtíðarskipan málaflokksins í heild sinni.