Í dag klukkan 18 var formlega kveikt á jólaljósunum í Sveitarfélaginu Árborg, á tröppum bókasafnsins á Selfossi.
Það voru afmælisbörnin Embla Dís Sigurðardóttir og Vigdís Katla Guðjónsdóttir, sem eru 6 ára í dag, sem kveiktu ljósin ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins.
Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, opnaði dagskrána og taldi niður í jólaljósin ásamt Barnakór Selfosskirkju sem söng einnig nokkur lög. Einnig stigu Karítas Harpa og Alexander Freyr á stokk og sungu jólalög og skátar úr Fossbúum buðu upp á heitt kakó.
í kvöld er jólaljósastund í mörgum verslunum á Selfossi með lengri opnunartíma.