Í síðustu viku var formleg opnun á endurbættu og stækkuðu húsnæði heilsugæslu Rangárþings á Hellu. Fjöldi gesta mætti á opnunina og fékk tækifæri á að skoða húsnæðið.
Í janúar síðastliðnum var heilsugæslunni lokað, öll starfsemi flutt á Hvolsvöll og hafist handa við að endurbæta húsnæðið og stækka en jafnframt var rýmið sem Lyf og heilsa var í áður, tekið undir starfsemi heilsugæslunnar. Endurbætt húsnæði heilsugæslunnar gjörbreytir öllu starfsumhverfi stöðvarinnar og bætir mjög aðstöðu starfsmanna og skjólstæðinga hennar.
Magnús Skúlason, fráfarandi forstjóri HSu, hélt ræðu og tók á móti gjöfum til heilsugæslu Rangárþings í tilefni þessaara tímamóta.
Rauði Kross Rangárvallasýslu gaf „Lukas 2“ sjálfvirkt hjartahnoðtæki að verðmæti tvær miljónir króna til notkunar í sjúkrabíla Rangárþings. Var tækið gefið í minningu Einars Erlendssonar sjúkraflutningamanns en hann varð bráðkvaddur fyrr á þessu ári.
Einnig gaf Kvenfélag Oddakirkju eyrnaskolunartæki að verðmæti 70 þúsund krónur.