Í gær urðu ákaflega skemmtilegir og heldur óvenjulegir endurfundir, þegar Helga R. Einarsdóttir á Selfossi sameinaðist kanínudúkku sem hún hafði týnt 74 árum áður.
Helga er frá Garði í Hrunamannahreppi en hefur búið á Selfossi í hartnær 58 ár. Það var svo í haust sem Björn Kjartansson, eigandi Garðs í dag, ákvað að gera róttækar breytingar á húsinu og hreinsaði allt innan úr því. Þá fundust ýmsir forláta og löngu gleymdir hlutir.
„Ég fékk símtal frá Bjössa um að hann hafði fundið ýmislegt dót sem hann vildi láta mig skoða – það voru myndir, gömul kort, gömul dagblöð og fleira. Þetta fannst á háaloftinu sem er yfir húsinu, sem var bara geymsluloft. Það var svo sem ekkert notað öðruvísi nema að bræður mínir sváfu þar á sumrin,“ segir Helga í samtali við sunnlenska.is.
Jólasveinunum kennt um hvarfið
Það var á þessu geymslulofti sem kanínudúkkan hennar Helgu fannst, eina dúkkan sem hún átti sem barn. Dúkkunni týndi hún fyrir jólin þegar hún var fimm ára gömul, árið 1949.
„Dúkkan hafði fengið að vera úti með okkur Erni bróður mínum og það var að koma kvöld. Ég man reyndar ekki nákvæmlega hvernig hún leit út, en þetta var örugglega sú eina sem ég átti og gat kallað „dúkkuna mína“. Svo var komið myrkur og mamma kallaði í okkur, við áttum að koma inn. Krakkar á þessum aldri, fjögurra og fimm ára, voru víst best geymdir inni eftir að dimmt var orðið á þessum tíma. Jólasveinarnir voru að tínast til byggða og þeir voru varasamir. Samt var þetta langalöngu áður en þeim datt í hug að gefa börnum dót eða nammi í skóna,“ segir Helga.
„Við fórum inn, en skömmu seinna áttaði ég mig á að „dúkkan“ – sem mamma vildi nú reyndar alltaf að ég kallaði „brúðu“ – hafði orðið eftir úti. Mamma fékk mig til að sættast á að sækja hana bara á morgun og ég þóttist alveg vita hvar hún væri. En næsta dag fannst hún ekki, sama hvað leitað var. Hún hafði horfið í myrkrinu um nóttina. Með sorg í hjarta og sárum gráti, varð ég að sætta mig við að sjá hana aldrei aftur. Mamma sagði nefnilega að jólasveinarnir hefðu tekið hana, kannski til að gefa einhverju öðru barni, sem ætti engin leikföng. Ég var nú víst ekki svo illa stödd og sætti mig á endanum við missinn, en gleymdi aldrei.“
Átti erfitt með að sofna sökum spennings
Helga segir að þegar hún skoðaði munina sem fundust upp á hálofti gerði hún sér ekki strax grein fyrir því að þetta væri kanínudúkkan sem var henni svo kær. Aldurinn og einangrunin uppi á háaloftinu hafði leikið hana grátt.
„Þegar ég fattaði svo hvað þetta væri þá fannst mér það mjög spennandi. Ég ætlaði ekki að getað sofnað þá um kvöldið. Brúðan var ennþá hjá Bjössa – ég tók hana ekki strax. Ég tók allt hitt dótið en skildi hana eftir – mér fannst hún svo ljót. Ég hugsaði ekkert út í það. En svo fór ég að hugsa seinna meir og ég var að lesa um það sem ég hafði skrifað áður um þetta þegar hún týndist, brúðan mín. Þá kom náttúrulega í ljós að hún hafði einhvers staðar verið.“
Var jólasveinninn bróðir hennar?
Helga áttaði sig einnig á því – nú sem fullorðin manneskja – að það væru kannski ekki alveg stoðir fyrir jólasveinaútskýringu móður hennar á hvarfi dúkkunnar. „Ef jólasveinarnir tóku ekki dúkkuna, þá hlaut hún að hafa verið einhvers staðar. En afhverju lenti hún á loftinu? Var það útaf því að Örn hafði tekið hana og kannski verið með hana í einhvern tíma, en ekki þorað að gefa sig fram, vegna þess að var búið að vera uppþot og vesen út af þessum jólasveinum – útaf þessu tjóni að týna henni?“
Örn bróðir Helgu hefur aftur á móti ekki vilja játað glæpinn, nú þegar dúkkan er aftur komin í leitirnar. „Hann segist ekki hafa mátt fara upp á loft á þessum tíma. En hvað heldurðu að fjögurra, fimm ára peyji muni?“ segir Helga sposk.
Yfirhalning í bígerð
En hvernig tilfinning er það að eignast aftur dót sem maður var búinn að týna og gefa upp á bátinn? „Það er bara gaman. Það er ekkert öðruvísi en það. Maður þarf að reyna að gera hana aðeins huggulegri, greyið. Hún hlýtur að hafa verið bleik á litinn og með augu og það hlýtur að hafa verið saumað svona krossnef eins og er á hundum. En hún hefur verið orðinn gömul, því að ég hef verið búin að naga hana í einhver ár eins og sést á eyrunum,“ segir Helga og bætir því við að mamma hennar hafi líklega saumað hana handa henni á sínum tíma. „Dót á þessum tíma var oftast bara eitthvað sem var búið til heima.“
Helga segir að hún hafi jafnað sig tiltölulega fljótt á brúðumissinum á sínum tíma. „Ég held að ég hafi bara verið alveg sátt þegar ég var búin að komast niður á það að einhver annar hefði fengið hana, sem átti kannski ekki neitt. Yfirleitt átti ég ekkert mikið dót því að ég var ekki mikil dótastelpa. Ég var bara úti að leika mér. Ég átti ekkert svona innidót, ég var ekki innikrakki.“
Krakkar í dag mættu hugsa betur um dótið sitt
Helga hefur engin sérstök skilaboð til fólks sem týnir dótinu sínu nema það að passa upp á dótið sitt. „Krakkar nú til dags ættu kannski að hugsa aðeins betur um það sem þau eiga. Það má líka alveg koma fram að ég er mikið þakklát honum Bjössa og konunni hans að þau skyldu hirða þetta gamla dót sem þau fundu og biðja mig að koma og skoða. Það hefðu ekkert allir gert það,“ segir Helga að lokum.