Anna Birna Þráinsdóttir, sem tekur við starfi sýslumanns á Suðurlandi þann 1. janúar næstkomandi, var meðal gesta á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á dögunum þar sem hún kynnti skipulag nýja embættisins.
Í máli hennar kom fram að við sameiningu verði engri starfsstöð lokað, allir starfsmenn halda vinnu sinni og þjónustan á ekki að skerðast. Verkefnum verður skipt á milli staða.
Á öllum stöðum, þ.e. á Höfn, Vík, Hvolsvelli og Selfossi verður þjónusta vegna vegabréfa, ökuskírteina, útlendingaafgreiðsla fyrir kennitölur og fleira. Hið sama má segja um umboð Tryggingastofnunar og sjúkratrygginga, sem og innheimta.
Á Selfossi verða sifjamál að mestu leyti, innheimta opinberra gjalda, uppboð og aðfarir fullnustugerðir, þinglýsingar að hluta og yfirumsjón starfa tryggingaumboðanna.
Á Hvolvelli verður staðgengill sýslumanns staðsettur, þinglýsingar að meirihluta og skipti dánarbúa. Í Vík verður áfram bókhald og bókhaldþjónusta við íslensk sendiráð, fjármálastjórn og útgáfa Lögbirtingarblaðsins.
Þau verkefni sem verða á Höfn eru fyrirtaka uppboðs- og aðfararbeiðna, þinglýsingar sem berast á skrifstofuna, sifjamál sem þarfnast fyrirtöku á staðnum. Leyfisveitingar hvers konar eins og happdrættisleyfi, sinubrennuleyfi, tækifærisleyfi og leyfi til útfararstjóra.