Ekkert varð af áramótabrennunni á Selfossi sem til stóð að kveikja í síðdegis í dag. Björgunarfélag Árborgar fékk útkall um leið og kveikja átti í brennunni.
Ofan á það bættist að bálkösturinn var mígandi blautur og illa gekk að kveikja upp í honum. Þar sem bílar sveitarinnar voru í útkalli og lítill mannskapur á svæðinu tókst ekki að útvega meiri olíu á eldinn og því fór sem fór.
Björgunarfélagið bætti þeim fjölmörgu brennugestum sem mættir voru á Sandvíkurheiði brennumissinn upp með frábærri flugeldasýningu.
Því má svo bæta við í lokin að útkallinu lauk farsællega en allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út til leitar að erlendum manni við Laugarvatn. Hann fannst heill á húfi. Þetta var annað útkall dagsins í Árnessýslu en fyrr í dag fannst annar maður heill á húfi við Hestvatn, en hans hafði verið saknað síðan í nótt.