Engin byggingarnefnd í Rangárþingi ytra

Hreppnefnd Rangárþings ytra hefur samþykkt að skipa ekki byggingarnefnd en fela þess í stað skipulags- og byggingarfulltrúa fullnaðarafgreiðslu á byggingarmálum sveitarfélagsins.

Skipulags- og byggingarfulltrúa er þannig falin fullnaðarafgreiðsla erinda á sviði byggingarmála sem eru í samræmi við viðeigandi skipulag. Ef vafi leikur á hvort umsókn samræmist skipulagi tiltekins svæðis þá verður erindið lagt fyrir skipulagsnefnd. Mánaðarlega verða afgreiðslur byggingarfulltrúa teknar saman og kynntar fulltrúum skipulagsnefndar.

Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti, segir að þetta sé gert til að auka skilvirkni, hagkvæmni og flýta fyrir ferli byggingarmála. Skipuð hefur verið þriggja manna skipulagsnefnd og í henni sitja auk Guðfinnu þau Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Þorgils Torfi Jónsson.

„Með þessu fyrirkomulagi á málaflokknum er þess vænst að hægt verði að bjóða íbúum og öðrum framkvæmdaaðilum sem besta þjónustu hverju sinni,“ segir Guðfinna.

Fyrri greinHaraldur Birgir nýr sviðsstjóri
Næsta greinFyrstu forkeppninni frestað um viku