Ný sýnataka Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hefur leitt í ljós að ekki er kólígerlasmit í neysluvatni í Vestur-Landeyjum.
Grunur um kólígerlasmit kviknaði í síðustu viku og voru viðkvæmir neytendur sem tengdir eru Tunguveitu hvattir til að sjóða neysluvatn sitt.
Nú hefur verið staðfest að seinna sýnið var neikvætt og neysla kalda vatnsins úr Tunguveitu hefur því engin óæskileg áhrif á neytendur.
Í tilkynningu frá Rangárþingi eystra eru íbúar beðnir afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur haft í för með sér og hefur sveitarfélagið í kjölfarið farið yfir verkferla sína þegar kemur að upplýsingagjöf til íbúa þegar grunur sem þessi á sér stað.