Kennsla fellur niður í Grunnskólanum í Þorlákshöfn í dag vegna brunans sem varð þar í gær.
Sjálfvirkt úðunarkerfi hússins fór í gang og er vatnstjón nokkuð en skemmdir urðu á rafmagnstöflu og raflögnum auk þess sem símkerfi skólans liggur niðri.
„Starfsmenn mættu hér í morgun til að laga til en það verður engin kennsla fyrr en á mánudaginn. Við vitum ekkert um tjónið en það er von á matsmanni í dag. Rafmagnstaflan var þurrkuð í alla nótt og símkerfið liggur niðri. Það verður unnið í þessu alla helgina,“ sagði Halldór Sigurðsson, skólastjóri, í samtali við sunnlenska.is.