Engin merki um aflögun eða óróa

Síðan um miðjan júní hefur jarðskjálftavirkni innan Kötluöskjunnar aukist og verið hærri en bakgrunnsvirknin. Yfir eitt hundrað grunnir skjálftar hafa mælst í öskjunni síðan 1. júní sl., sem er næstum fjórum sinnum meira en mánaðarmeðaltal undanfarinna ára.

Jarðskjálftarnir koma oftast í hrinum sem vara frá nokkrum mínútum upp í nokkrar klukkustundir, oft um og yfir 20 skjálftar. Stærstu skjálftarnir síðan hræringarnar hófust urðu 26. júlí kl. 03:42 og 03:50 og voru báðir af stærð M3,2.

Aukin skjálftavirkni er algeng í Kötlu á sumrin og yfirstandandi hræringar í öskjunni eru áþekkar aukningunni sumarið 2012 og sumarið 2014. Þessi aukning í jarðskjálftavirkni verður oft í tengslum við losun bræðsluvatns úr mörgum þekktum ískötlum, sem hafa orðið til vegna jarðhita, og yfirleitt gerist þetta á hverju ári.

Frá því í lok júní 2016 hafa orðið þrjú lítil flóð í Múlakvísl og einnig eitt flóð frá Entujökli. Eins og er sýna mælingar á vatnshæð og rafleiðni við brúna yfir Múlakvísl aukið rennsli jarðhitavatns frá Mýrdalsjökli. Allmargar tilkynningar hafa borist í allt sumar um brennisteinslykt frá jökulánum í kringum Mýrdalsjökul.

Mælingar umhverfis Kötlu sýna engin merki um aukna aflögun jarðskorpunnar eða óróahviður en hvort tveggja gæti verið vísbending um kvikuhreyfingar. Áfram er fylgst mjög náið með Kötlu og frekari upplýsingar verða gefnar jafnóðum á vef Veðurstofunnar ef virknin verður ákafari.

Mat sérfræðinga Veðurstofunnar er að eldfjallið sé einungis að sýna aukna virkni að sumri til eins og svo oft áður og að engin merki sjáist um að eldgos sé yfirvofandi, þó ekki sé hægt að útiloka meiri jarðskjálftavirkni í tengslum við stærri flóð.

Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands um nýlega aukningu í jarðskjálftavirkni í Kötlu undir Mýrdalsjökli. Samantektin er ætluð sem yfirlýsing Veðurstofunnar og er talin nauðsynleg vegna þess að sá mikli áhugi, sem fjölmiðlar víða um heim hafa sýnt íslenskum eldfjöllum síðan Eyjafjallajökull gaus 2010, veldur því að stundum fara misvísandi fréttir af stað.

Fyrri greinYtri-Rangá komin yfir 3.000 laxa
Næsta grein10-12% meiri umferð en á sama degi í fyrra (og allt stopp við Selfoss)