Enn hefur ekki fengist niðurstaða í sameiningu eigna við Suðurlandsveg 1-3 á Hellu í þeim tilgangi að breyta eignarhaldi og endurskipuleggja fjármál hlutafélags um húsið.
Tengibygging við húsin hefur verið í byggingu í meira en ár og átti að taka í notkun í fyrrasumar.
Að því er heimildir Sunnlenska segja hefur Verkalýðsfélagið tekið jákvætt undir sameininguna en ennþá strandar á lífeyrissjóði Rangæinga hvað varðar eignatilfærslu á húsnæði sjóðsins inn í hlutafélagið um tengibygginguna.
Þröstur Sigurðsson framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins segir að ýmsar spurningar hafi vaknað um eignarform og lagatæknileg atriði, einkum hvort félagið megi auka eign sína í óskráðum félögum. Hann játar því að málið sé umdeilt meðal félagsmanna.