Ekki hafa bæst við ný kórónuveirusmit á Suðurlandi síðustu fimm daga, eða síðan 14. nóvember. Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is.
Í dag eru 13 manns í einangrun á Suðurlandi vegna COVID-19 og 9 í sóttkví. Þar að auki eru 29 í landamærasóttkví á Suðurlandi.
Tölur yfir fjölda í einangrun og sóttkví hafa verið birtar á heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Þar hefur nú bæst við dálkur yfir þá sem eru í landamærasóttkví.
„Þeir sem eru skráðir í sóttkví er fólk sem varð útsett fyrir smiti en í landamæraskimunarsóttkví er fólk sem er að koma heim erlendis frá,“ segir Elín Freyja. Landamærasóttkví er fimm dagar og fer fólk að henni lokinni í seinni skimun.
Elín Freyja segir að smitum fækki á Suðurlandi eins og á öllu landinu en ekki hafi bæst við ný smit á Suðurlandi síðan 14. nóvember.
„Við vonum innilega að þessi þróun verði áfram og því mikilvægt að fólk fari ekki að fagna sigri of snemma og slaki á í sóttvörnum,“ segir Elín Freyja að lokum.
Alls greindust fjögur kórónuveirusmit innanlands í gær að því er fram kemur á covid.is