Engin ný tilfelli greinst

Höfuðstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi. sunnlenska.is/Sigmundur

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking með skæðu afbrigði veirunnar (H5N5) greindist í einu kalkúnaeldishúsi í Auðsholti í Ölfusi þann 3. desember síðastliðinn.

Eins og fram hefur komið skilgreindi Matvælastofnun svæði í 10 km radíus umhverfis búið og gefin voru fyrirmæli um sérstakar sóttvarnaráðstafanir á fuglabúum innan þess. Jafnframt hefur Matvælastofnun aukið eftirlit með flutningi fugla innan svæðisins og út af því. Sýni eru tekin úr fuglahópum sem fyrirhugað er að slátra og þeir ekki sendir til slátrunar fyrr en niðurstöður liggja fyrir og þær hafa reynst neikvæðar.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að að öllu óbreyttu standi vonir til að smátt og smátt verði hægt að létta takmarkanir og afnema þær að fullu fyrir áramót. Mjög brýnt sé þó að vera vel á verði og bregðast skjótt við ef vart verður við veikindi eða óeðlilega mikinn dauða í fuglahópum. Veiran er til staðar í villtum fuglum og því alltaf hætta á að hún berist inn í fuglahús.

Fyrri greinVegleg gjöf frá Minningarsjóði Jennýjar Lilju
Næsta greinStekkjaskóli meðal vinningshafa í landsátakinu „Syndum“