Safnahelgi á Suðurlandi, sem haldin hefur verið fyrstu helgina í nóvember frá árinu 2008, verður ekki haldin þetta árið.
Í tilkynningu frá stjórn Samtaka safna á Suðurlandi segir að safnahelgi sé orðin of umfangsmikil og svæðið of stórt í markaðslegu tilliti. Einnig vanti að vissu leyti samnefnarann sem var menningarfulltrúi Suðurlands, en það starf hefur verið lagt niður. Því þurfi að endurhugsa hvernig starfi safna og setra á Suðurlandi verði komið á framfæri.
Samtök safna, setra og sýninga á Suðurlandi telja um 40 aðila á öllu Suðurlandi, sem eru flest öll bóka-, byggða-, lista- og skjalasöfn, setur og sýningar á Suðurlandi sem og menningar- og ferðamálafulltrúar svæðisins.
Þrátt fyrir að Safnahelgi á Suðurlandi verði ekki haldin þetta árið munu sumir liðir hennar samt sem áður verða haldnir um næstu helgi, svo sem Safnahelgi í Vestmannaeyjum og Uppskeru- og þakkarhátíð Skaftárhrepps.