Bókasafni Árborgar á Selfossi var lokað í gær vegna framkvæmda og verður það lokað til mánudagsins 16. september.
„Það á að færa hluta þjónustuvers Árborgar hingað niður til okkar, leggja nýtt gólf og brjóta niður veggi. Það verða breytingar á skrifstofu minni og vinnuherbergi starfsmanna og svo á að gera smá aðstöðu fyrir okkur til að hella á könnuna. Svo þetta verður heilmikið rask en vonandi kemur þetta vel út,“ sagði Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
Söfnin á Eyrarbakka og Stokkseyri eru opin á mánudögum og fimmtudögum frá klukkan 16-18 og á þriðjudögum frá 19-21.
„Bókasafnskortin gilda hjá öllum bókasöfnum Árborgar svo ég hvet fólk til að renna á ströndina til að taka út bækur. Allir skiladagar verða færðir til 19.september svo það er engin þörf á að hafa áhyggjur af sektum meðan safnið er lokað,“ bætti Heiðrún Dóra við.