Á síðasta fundi eigna- og veitunefndar Sveitarfélagsins Árborgar voru opnuð tilboð í tvö verk á vegum sveitarfélagsins. Svo bar við að engin tilboð bárust í verkin.
Annars vegar var um að ræða hönnun og framkvæmdir við fyrirhugaða frístundamiðstöð í sveitarfélaginu og hins vegar nýjan miðlunargeymi Selfossveitna við Austurveg 67 á Selfossi.
„Það er miður að engin tilboð hafi borist í þessu tvö verkefni. Það er ljóst að það er nóg er að gera hjá verktökum, auk þess sem það getur jafnvel verið erfitt að fá ákveðið byggingarefni og sérhæfða verktaka i verkið. Þetta hefur kannski ekki verið heppilegasti tímapunkturinn fyrir útboð,“ sagði Sveinn Ægir Birgisson, formaður eigna- og veitunefndar, í samtali við sunnlenska.is.
Nefndin fól sviðsstjóra að vinna mál frístundamiðstöðvarinnar áfram og leggja fram tillögur fyrir nefndina um næstu skref. Varðandi miðlunargeyminn var mannvirkja- og umhverfissviði falið að leita leiða til að framkvæmdir geti hafist á þessu ári.
„Við hefum helst viljað að framkvæmdir myndu hefjast sem fyrst. Sértaklega við miðlunargeymirinn, svo hann væri klár fyrir næsta vetur. Sú framkvæmd tryggir okkur afhendingaröryggi á heitu vatni ef upp kemur bilun í kerfinu. Það er næst á dagskrá hjá okkur að kanna hvort hægt sé að skipta framkvæmdinni upp og bjóða hana út í áföngum,“ bætir Sveinn Ægir við.