Engin tilboð í brúarsmíði í Öræfum og Suðursveit

Brúin yfir Kvíá. sunnlenska.is/Jóhanna S. Hannesdóttir

Vegagerðinni bárust engin tilboð í brúarsmíði þriggja brúa í Öræfum og Suðursveit sem auglýst voru í júlí.

Í síðustu viku stóð til að opna tilboð í nýjar brýr yfir Steinavötn og Fellsá ásamt uppbyggingu á hringveginum í Suðursveit á tveimur köflum beggja megin brúa. Núverandi brú yfir Steinavötn er bráðabirgðabrú sem byggð var eftir að eldri brú eyðilagðist í flóði árið 2017. Ekkert tilboð barst í verkið.

Áður hafði Vegagerðin auglýst eftir tilboðum í smíði nýrrar 32 m langrar brúar á Kvíá í Öræfum en ekkert tilboð barst í það verk heldur. Verkinu átti að ljúka í janúar næstkomandi.

Það er verið að skoða hvað verður gert varðandi Kvíá. Þar er einn möguleiki að annar hvor brúarvinnuflokkanna okkar taki verkið að sér, eða þá að bjóða út aftur. Það er ekki búið að taka ákvörðun um það. Líklega verður bygging brúa yfir Fellsá og Steinavötn boðin aftur út í haust,“ sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinEva María með mótsmet og þrjú ný HSK-met
Næsta greinVeiðimaður féll í Úlfljótsvatn