Enginn í beltum og allir köstuðust út

Mikið annríki hefur verið hjá lögreglu og sjúkraflutningamönnum í Árnessýslu í dag vegna umferðaróhappa sem flest má rekja til þess að ökumenn misstu stjórn á bílum sínum í hálku.

Alvarlegt umferðarslys varð í Þrengslunum um miðjan dag í dag. Þar valt bíll útaf veginum og köstuðust ökumaður og tveir farþegar allir út úr bílnum en enginn þeirra var í öryggisbelti. Allir voru fluttir slasaðir á slysadeild í Reykjavík en meðal annars var grunur um innvortis áverka. Tveir liggja alvarlega slasaðir á gjörgæsludeild Landspítalans en sá þriðji er minna slasaður.

Tvö óhöpp urðu við gatnamót Suðurlandsvegar og Skeiðavegar. Í öðru tilvikinu hafnaði bíll með hestakerru á ljósastaur og drapst hestur sem var í kerrunni í árekstrinum.

Síðdegis varð svo bílvelta við Kerið í Grímsnesi þar sem ökumaður missti stjórn á jepplingi í hálku þar sem hann ók niður brekku. Þrír voru í bílnum og sluppu allir án meiðsla en bíllinn er mikið skemmdur.

Fyrri greinSigurður Ingi með 100% atkvæða – Silja Rún fékk annað sætið
Næsta greinHamarskonur í frábærri stöðu