Vélaskemma á Galtalæk í Landsveit brann til kaldra kola í gærkvöldi. Brunavarnir Rangárvallasýslu börðust við eldinn fram undir miðnætti en útkallið barst klukkan 18:15.
„Það var ekki neinu að bjarga þegar við komum á staðinn. Fyrsti bíll mætir á svæðið tuttugu mínútum eftir að útkallið berst og þá er húsið alelda. Það voru ekki önnur hús í hættu, það er gamalt autt íbúðarhús þarna í fimmtán metra fjarlægð en reykurinn stóð frá því þannig að það var engin hætta á að eldurinn bærist í önnur hús,“ sagði Leifur Bjarki Björnsson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Í miðju slökkvistarfinu varð öflug gaskútasprenging inni í húsinu en Leifur segir að enginn sinna manna hafi slasast við sprenginguna.
„Við vissum af gaskútunum þarna inni, það getur hvað sem er verið inni í þessum vélarhúsum til sveita, olíur og annað, þannig að þetta er hættulegur vettvangur. En mennirnir stóðu hlémegin við veggina og sprautuðu inn um glugga þannig að það var enginn í skotlínu þegar gasið sprakk,“ segir Leifur Bjarki. „Við komum allir heilir heim og slökkvistarfið gekk ágætlega.“
Um tuttugu slökkviliðsmenn frá stöðvunum á Hellu og Hvolsvelli fóru í útkallið og stóð slökkvistarf til miðnættis. Slökkviliðsmenn mættu aftur á svæðið klukkan níu í morgun til þess að slökkva í glæðum og í rúllustæðu sem hafði hitnað vel í, en hún stóð við húsið.
Skemman er gjörónýt eftir eldinn og hefur lögreglan á Suðurlandi nú vettvanginn til rannsóknar og leitar að mögulegum eldsupptökum.