Ökumaður sem grunaður er um ölvun við akstur hringdi í lögreglu eftir að hann hafði fest bifreið sína við Reykholt í Biskupstungum um helgina.
Þegar lögreglumenn komu á staðinn kannaðist enginn við að hafa ekið bifreiðinni sem hafði farið útaf veginum. Málið er í rannsókn en þrír karlmenn voru handteknir í þágu rannsóknarinnar og yfirheyrðir.
Annars höfðu lögreglumenn í nógu að snúast við að aðstoða ökumenn vegna ófærðar á föstudagskvöld. Nokkuð var um að leitað væri til lögreglu vegna ökutækja sem sátu föst í snjó.
Einn ökumaður til viðbótar var kærður fyrir ölvunarakstur um helgina að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Selfossi.