Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á síðasta fundi sínum samning við Skaftholt sjálfseignastofnun um að jarðgera lífrænt sorp.
Þannig mun Skaftholt taka við lífrænum úrgangi frá íbúum sveitarfélagsins og jarðgera hann. Sveitarfélagið mun sjá um að koma úrganginum í Skaftholt. Stefnt er að því að þann 1. október næstkomandi verði flutningi lífræns úrgangs úr sveitarfélaginu hætt.
„Okkur hefur fundist eitthvað óeðlilegt við að verið sé að keyra lífrænan úrgang frá íbúunum úr héraðinu með tilheyrandi kostnaði og olíueyðslu. Það er ánægjulegt að þörf skuli vera fyrir þetta hráefni hér innan sveitar. Þarna erum við með hráefni sem gagnast vel starfseminni í Skaftholti,“ segir Kristófer A. Tómasson, sveitarstjóri, í pistli í nýjasta fréttabréfi hreppsins. „Ég lít svo á að hér sé verið að taka stórt framfaraskref í umhverfismálum,“ segir Kristófer ennfremur.