Enginn sótti um starf leikskólastjóra leikskólans Leikholts í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem auglýst var í síðasta mánuði.
Haraldur Þór Jónsson, sveitarstjóri, greinir frá þessu í pistli sínum í nýjasta tölublaði Gauksins.
Í framhaldi var leitað til fyrirtæksins Getu, sem sérhæfir sig í gæðastarfi í skólum, meðal annars með úttektum og ráðgjöf til sveitarfélaga. Eigandi Getu er Anna Greta Ólafsdóttir og mun hún taka tímabundið við stjórn leikskólans, næstu sex mánuðina á meðan stefnumótunarvinna fer fram.
Anna Greta er kennari að mennt með MA gráðu í menningarstjórnun og hefur víðtæka stjórnunarreynslu sem skólastjóri, aðallega í grunnskólum en einnig í sameinuðum leik- og grunnskóla. Hún hefur einnig starfað sem mannauðsstjóri hjá stofnunum ríkisins og hefur síðastliðið ár starfað sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi á sviði stjórnunar og skólamála.