Lögreglan á Suðurlandi kærði 37 ökumenn fyrir að aka of hratt í síðustu viku og voru flestir þeirra á Suðurlandsvegi.
Af þeim voru þrír á 140 km/klst hraða eða meira og einn þeirra á 157 km/klst hraða. Sá var á ferðinni á þjóðvegi 1 til móts við Hellisholt í Mýrum, vestan við Hornafjörð. Hann gekkst undir sektargerð að upphæð 230 þúsund krónur og var sviptur ökurétti í 2 mánuði.
Enginn af þeim ökumönnum sem lögreglan stöðvaði í síðustu viku reyndist ölvaður eða undir áhrifum fíkniefna. Þá er einungis eitt umferðaróhapp í dagbók síðustu viku og var það það smávægilegt að aðilar voru aðstoðaðir við að fylla út tjónstilkynningu á staðnum.
Síðastliðinn föstudag fékk lögreglan tilkynningu um ferðaþjónustuaðila með ferðamenn á fjórhjólum í utanvegaakstri við Krókslón. Tilkynnandi sendi lögreglu ljósmyndir af vettvangi og er málið til rannsóknar.