Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði einn ökumann í liðinni viku grunaðan um ölvunarakstur. Hins vegar var enginn stöðvaður í síðustu viku vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna eða lyfja, þrátt fyrir mikið eftirlit lögreglu, og þykir það tíðindum sæta.
Alls voru 40 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Einn reyndist á rúmlega 140 km/klst hraða og þrír á bilinu 131 til 140 km/klst hraða á 90 km vegum. Lögreglan segir ljóst að þarna sé vel í lagt og slysahætta umtalsverð.
Sex þeirra sem óku of hratt voru stöðvaðir innan bæjarmarka, á Selfossi, Eyrarbakka og Hellu, á svæðum þar sem hámarkshraði er 70, 50 eða 30 km/klst.
Þá voru tveir kærðir fyrir að nota farsíma eða snjalltæki við akstur bifreiðar sinnar án þess að vera með handfrjálsan búnað. Annar þeirra braut jafnframt gegn stöðvunarskyldu við þessa iðju sína og var sektaður fyrir það brot líka.